Hættan er ljós

Nú er að hefjast átak sem beinist að fermingarbörnum og forráðamönnum þeirra þar sem bent er á hættuna sem fylgir því að ungt fólk fari í ljósabekki. Skilaboðin eru frá Félagi íslenskra húðlækna, Geislavörnum ríkisins, Krabbameinsfélaginu, Landlæknisembættinu og Lýðheilsustöð. Þetta er sjöunda árið sem farið er í fræðsluherferð undir slagorðinu „Hættan er ljós“. Birtar verða auglýsingar í dagblöðum og á vefsíðum, m.a. Facebook, og fjallað um málið í fjölmiðlum.

Sjá nánari umfjöllun á fréttasíðunni okkar

Faraldur af sortuæxlum hjá ungum konum

Áberandi er hve sortuæxli eru algeng hjá konum yngri en 35 ára skv. tölum frá Krabbameinsfélagi Íslands. Á línurtitunum hér að neðan er tíðnin borin saman á milli Norðurlandanna. Þar kemur fram að fram undir 1990 er tíðni sortuæxla hjá ungum konum lægst hér á landi, en fer ört vaxandi eftir það. Á síðustu árum eru íslensku konurnar með nánast þrefalda tíðni miðað við hin Norðurlöndin. Þekkt er að útfjólubláir geislar er einn helsti áhættuþáttur í myndun sortuþæxla og þegar tekið er tillit til legu landsins koma þessar niðurstöður nokkuð á óvart. Hækkun hefur einnig sést hjá ungum karlmönnum, en hún er ekki eins áberandi.

Fyrir þá sem vilja kynna sér einkenni sortuæxla má gera það hér.

Stöð 2 birti frétt um málið og má nálgast fréttina hér að neðan:
stod2

Pasted Graphic


Pasted Graphic 2

Leiðbeiningar til þeirra sem hafa aukna áhættu á myndun sortuæxla

Þekktir eru ýmsir áhættuþættir að því er varða myndun sortuæxla. Þar má nefna sólbruna, sérstaklega í æsku, óhóflega sólun, óreglulega fæðingarbletti, náin ættingi sem hefur greinst með sortuæxli marga fæðingarbletti, ljósbekkjanotkun og ljósan húðlit. Ef þú fellur í einhvern þessara flokka þarftu að kynna þér eftirfarandi.

1. Kynna sér staðreyndir um sortuæxli og útlit  þeirra þannig að þeir geti greint hættumerkin. Þess vegna er nauðsynlegt að kynna sér eftirfarandi efni.
2. Skoða húðina mánaðarlega m.t.t. breytinga. Hvernig slík skoðun fer fram er lýst hér að ofan
3. Nota sólvörn 25 eða meira í sól
4. Nota ekki ljósabekki
5. Regluleg skoðun hjá húðlækni ef þú ert með mikið af fæðingarblettum og/eða óreglulega fæðingarbletti.
6. Ef blettur er að breyta sér. Hafa samband við Húðlæknastöðina í síma 5204444, eða með tölvupósti. Gefa upp að þú hafir áhyggjur af blett sem er að breyta sér.

Mikilvægt er að átta sig á að blettir sem eru í lagi við skoðun geta breytt sér á 6 mánuðum eða jafnvel styttri tíma. Þess vegna er mánaðarleg sjálfskoðun mjög mikilvæg.

Kær kveðja

Húðlæknastöðin

www.hudlaeknastodin.is

Blessuð sólin elskar allt

Pasted Graphic
Bárður Sigurgeirsson húðsjúkdómalæknir
Greinin birtist í Læknablaðinu 7. tbl 90. árg. 2004

Nú er tími sumarleyfa, sólarlandaferða, sólbaða, útivistar og vonandi eigum við eftir að njóta margra góðviðrisdaga á þessu sumri. Í tilefni af þessu er ekki úr vegi að huga að því að blessuð sólin hefur einnig aðrar hliðar, skuggahliðar sem mun verða fjallað um hér á eftir.

Sólargeislar geta valdið sólbruna, öldrun húðar og húðkrabbameini (1). Faraldsfræðilegar Bárður Sigurgeirssonrannsóknir hafa sýnt að flöguþekjukrabbamein tengjast heildargeislamagni, en sortuæxli og grunnfrumukrabbamein hafa verið tengd við óreglulega sólun (2, 3). Sortuæxli hafa einnig verið tengd sólbrunum og sólböðum í æsku (2). Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru margir tilbúnir að greiða dýru verði fyrir brúnan húðlit (3, 4). Talið er að sólargeislarnir geti valdið húðkrabbameini með því að valda stökkbreytingum í mikilvægum stjórngenum eins og p53 og með bælingu ónæmiskerfisins (5). Jafnvel minni háttar roði í húðinni eftir sólbað er merki um DNA skemmdir bæði í litarfrumum og hornfrumum (6). Húð flestra einstaklinga býr yfir öflugu viðgerðarkerfi sem oftast lagfærir slíkar skemmdir. Sjúklingar sem hafa meðfædda viðgerðargalla fá hins vegar fjölda húðkrabbameina, strax á fyrstu árum ævinnar. Margt bendir til þess að sá lífstíll sem við tömdum okkur á tuttugustu öldinni valdi svo miklu álagi á viðgerðarkerfi húðarinnar að í mörgum tilvikum nái húðin ekki að laga skemmdirnar og að afleiðing­arnar séu ört vaxandi nýgengi húðkrabbameina. Þó talið sé að flest húðkrabbamein megi rekja til geisla sólarinnar hafa nýlegar rannsóknir einnig sýnt fram á tengsl húðkrabbameina við notkun ljósabekkja (6, 7).
Pasted Graphic 2

Undanfarna ártugi hefur nýgengi húðkrabba­meina, sérstaklega sortuæxla, aukist hratt hérlend­is (mynd 1) (8). Samkvæmt upplýsingum frá Krabba­meinsskrá Krabbameinsfélagsins greinast að meðal­tali 45 manns á ári með sortuæxli í húð, 45 með önn­ur húðæxli og um 170 manns með svonefnd grunn­frumuæxli í húð. Tíðni húðæxla í heild hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum og mest er aukningin hjá ungum konum. Sortuæxlum hefur fjölgað mest, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameina og algengasta krabbameinið hjá konum á aldrinum 15-34 ára. Á síðastliðnum tuttugu árum hefur nýgengi sortuæxla hjá konum farið úr 5,3 tilvikum í 18,5 (miðað við 100.000 íbúa) (8).

Til að draga úr tíðni húðkrabbameina og dauðsföllum af þeirra völdum er talið árangursríkast að beita fyrirbyggjandi aðgerðum og að greina meinin snemma.
Pasted Graphic 3

Það virðist vera að hérlendis gangi betur að greina meinin snemma en áður. Til marks um þetta er að dánartíðni (mynd 2) hefur ekki aukist að sama skapi og nýgengi og að í flestum löndum greinast nú þynnri æxli en áður (8). Mikilvægt er að allir læknar hugi að greiningu húðkrabbameina. Kjörið tækifæri gefst til að skoða húðina við flestar læknisheimsóknir þó sjúklingurinn leiti ekki læknis vegna húðbreytinga. Sýnt hefur verið fram á að mörg húðkrabbamein greinast þegar sjúklingarnir leita læknis vegna annarra vandamála (9). Í mörgum tilvikum þurfa sjúklingarnir að afklæðast til að læknisskoðun geti farið fram og tekur þá ekki langan tíma að skoða húðina samhliða. Á þennan hátt geta greinst mein á frumstigi sem hefðu annars hugsanlega greinst síðar og getur þannig skilið á milli feigs og ófeigs. Vakni grunur um húðkrabbamein er sjálfsagt að vísa sjúklingnum til læknis sem hefur reynslu af meðferð og greiningu húðkrabbameina. Sé þess ekki kostur og grunur er um sortuæxli, ber að fjarlægja meinið í heild sinni með 2 mm hreinum brúnum ásamt fitulagi (10). Reynist meinið illkynja þarf að framkvæma útvíkkaða skurðaðgerð. Ekki er ásættanlegt að taka eingöngu sýni úr æxlinu því slíkt getur leitt til falskrar neikvæðrar niðurstöðu og tafið greiningu (10).

Hin aðferðin byggir á fræðslu til almennings og áhættuhópa. Almenn ráð fela í sér að forðast sólbruna, klæða af sér sólina, nota sólvörn, vera ekki í sólskini um miðjan daginn og síðast en ekki síst að nota ekki ljósabekki (10). Þrátt fyrir að sterk rök séu gegn sólböðum bendir flest til þess að brúnn húð­­litur sé í tísku hérlendis (4). Nýleg könnun hér­lend­­is bendir til að áhættuhegðun hér sé algeng (tafla), þannig að fræðslan virðist ekki komast nægi­lega vel til skila (4). Áberandi er að flestir hafa brunn­ið í sólinni og að regluleg notkun sólvarnar­krema er ekki almenn. Læknar eru í lykilstöðu og ættu að nota tækifærið og ræða sólvarnir við sjúk­linga sína, sérstaklega þá sem eru mjög brúnir, hafa mikið af fæðingarblettum eða þar sem má finna merki sólsköddunar í húð. Einnig má benda á að sólböð, sérstaklega sólbruni barna og unglinga, virð­ast hafa í för með sér meiri hættu á myndun sortu­æxla, en slík hegðun síðar á ævinni. Það er því sér­stak­lega mikilvægt að huga að sólvörnum barna og unglinga.

Hérlendis er sérstakt áhyggjuefni hve ljósbekkja­notkun virðist algeng hjá börnum og unglingum. Í tengslum við nýlegt fræðsluátak (Hættan er ljós), Geislavarna ríkisins, Krabbameinsfélagsins, Landlæknisembættisins og Félags íslenskra húðlækna var ljósbekkjanotkun könnuð (11). Tekjulágt fólk með litla menntun fer frekar og oftar í ljósa­bekki heldur en aðrir. Af þeim sem fóru í ljós síð­ustu tólf mánuðina fór fjórði hver oftar en tíu sinnum. Um 24,1% unglinga á aldrinum 12-15 ára fór í ljós á því tímabili.

Mun algengara er að konur fari í ljós heldur en karlar, 39,3% samanborið við 21,9%. Yngri konur fara frekar í ljós en þær sem eldri eru. Samkvæmt könnuninni má áætla að dag hvern fari um átján hundruð Íslendingar í ljós.

Könnunin leiddi einnig í ljós að um 70% kvenna á aldrinum 16-24 ára fóru í ljós síðustu tólf mánuði, um 54% 25-34 ára, um 24% 35-44 ára og 23% á aldrinum 45-75 ára. Um 35% karla á aldrinum 16-24 ára fóru í ljós síðustu tólf mánuði, um 38% 25-34 ára, um 19% 35-44 ára og 9% á aldrinum 45-75 ára. Samanburður við önnur lönd bendir til þess að fleiri Íslendingar en Svíar, Bretar og Kanadamenn fari í ljós.
Pasted Graphic 1

Fyrstu sólbaðsstofurnar hér á landi tóku til starfa fyrir aldarfjórðungi. Lausleg athugun leiðir í ljós að á höfuðborgarsvæðinu séu nú um þrjá­tíu sólbaðsstofur, auk þess sem ljósabekkir eru á mörgum líkamsræktarstöðvum og á sundstöðum (12). Í ljósi sterkra raka um skaðsemi ljósbekkja verður það að vera sjálfsögð krafa að ljósabekkir verði fjarlægðir úr opinberum stofnunum, svo sem sundstöðum og öðrum íþróttamannvirkjum. Það skýtur mjög skökku við að á stöðum sem ætlað er að bæta heilbrigði landsmanna sé seldur aðgangur án takmörkunar að ljósabekkjum sem geta valdið húðkrabbameini.

Útfjólubláu ljósi má skipta í stutta geisla (UVB, 295-320 nm) sem valda sólbruna og langa geisla (UVA, 320-400 nm) sem bæla ónæmiskerfið og valda hrukkumyndun. Ljósabekkir gefa frá sér nánast eingöngu UVA geisla. Í fyrstu voru eingöngu UVB geislar tengdir húðkrabbameini, en seinni tíma rannsóknir hafa einnig sýnt sterk tengsl við UVA geisla. Fyrstu sólvarnirnar veittu eingöngu vörn gegn UVB geislum og bruna og gátu þannig aukið UVA geislamengun þeirra sem notuðu sólvarnarkrem. Flestar sólvarnir í dag veita vörn gegn bæði UVA og UVB geislum, en sólvarnarstuðullinn segir eingöngu til um vörn gegn UVB geislum og mælir í raun og veru hve miklu lengri tíma það tekur að mynda roða í húð sem hefur verið borin á sólvarnarkrem, samanborið við ómeðhöndlaða húð. Er þá miðað við að borið sé nokkuð þykkt lag á húðina. Rannsóknir hafa sýnt að flestir bera mun þynnra laga á húðina og að svæði eins og háls, vangar og eyru gleymast oft alveg (13). Rannsóknir sýna að margir nota sólarvörn með röngu hugarfari, það er til þess að lengja tímann sem hægt er að vera í sól án þess að brenna (13). Þetta kann að leiða til óhóflega mikillar UVA geislunar. Það er því mikilvægt að fræða fólk um rétta notkun sólvarnarkrema og leggja áherslu á að notkun sólvarnarkrema á ekki að leiða til aukins tíma í beinu sólskini. Mikilvægt er að leggja áherslu á að samhliða notkun sólvarnarkrema, sé sólin klædd af sér og reynt að halda sig í skugga eftir því sem kostur er.

Að lokum; algengi húðkrabbameina, sérstaklega sortuæxla, hefur aukist mjög mikið hérlendis. Læknar eru í lykilaðstöðu til að greina slík mein snemma og einnig til að veita fræðslu um sólvarnir. Ljósabekkjanotkun hérlendis er með því hæsta sem þekkist og vil ég nota tækifærið og skora á yfirvöld að setja reglugerð sem geri notkun ljósabekkja hjá unglingum háða skriflegu leyfi foreldra.

1. Green A, Williams G. Ultraviolet radiation and skin cancer: epidemiological data from Australia. In: Environmental UV Photopiology (Young A, Bjorn L, Moan J et al., eds). New York: Plenum, 1993: 223-54.

2. IARC. Monographs on the Evaluation of Carcinogenic Risks to Humans. In: IARC, Lyon: 1992.

3. Rosso S, Zanetti R, Pippione M, Sancho-Garnier H. Parallel risk assessment of melanoma and basal cell carcinoma: skin characteristics and sun exposure. Melanoma Res 1998; 8: 573-83.

4. Rafnsson V, Hrafnkelsson J, Tulinius H, Sigurgeirsson B, Ólafsson JH. Risk factors for cutaneous malignant melanoma among aircrews and a random sample of the population. Occup Environ Med 2003; 60: 815-20.

5. Matsumura Y, Ananthaswamy HN. Molecular mechanisms of photocarcinogenesis. Front Biosci 2002; 7: d765-83.

6. Young AR, Chadwick CA, Harrison GI, Hawk JL, Nikaido O, Potten CS. The in situ repair kinetics of epidermal thymine dimers and 6-4 photoproducts in human skin types I and II. J Invest Dermatol 1996; 106: 1307-13.

7. Koh HK, Geller AC, Miller DR et al. Prevention and early detection strategies for melanoma and skin cancer. Current status. Arch Dermatol 1996; 132: 436-43.

8. Jónason J, Tryggvadóttir L, eds. Krabbamein á Íslandi. Krabba­meinsskrá Krabbameinsfélags Íslands 50 ára. Reykjavík: Krabba­meinsfélagið, 2004.

9. Lindelof B, Hedblad MA, Sigurgeirsson B. Melanocytic naevus or malignant melanoma. A large-scale epidemiological study of diagnostic accuracy. Acta Derm Venereol 1998; 78: 284-8.

10. SIGN. Cutaneous Melanoma. A national clinical guideline. In: Scottish Intercollegiate Guidelines Network, Edinburgh: 2003.

11. Gallup. Ljósabekkir - Viðhorfskönnun. Geislavarnir ríkisins, 2004.

12. Krabbameinsfélagið. Fjórði hver unglingur fór í ljós síðasta árið. In: Krabbameinsfélagið, Reykjavík: 2004: www.krabb.is/2004frettir/0330gallup

13. Azurdia R, Rhodes L. - Has the sun protection factor had its day. Sunscreen users need education in application technique. BMJ 2000; 320: 1275.

Sortuæxli og frumubreytingar í blettum. Skugginn frá ljósabekknum

Pasted Graphic 4Pasted Graphic 5

Jón Hjaltalín Ólafsson yfirlæknir göngudeildar húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala
Kristín Þórisdóttir sérfræðingur í húðsjúkdómum.

Greining birtist í Læknablaðinu 7./8. tbl. 86 árg. 2000

Greining á blettum (naevus) í húð hefur lengi vafist fyrir læknum og ekki að ástæðulausu. Þótt til séu reglur um hvaða bletti sé eðlilegt að fjarlægja eru frávikin mikil og ekki óalgengt að niðurstöður vefjagreiningar komi lækninum á óvart. Mikilvægi frumubreytinga í blettum (dysplasia, architectural disorder) hefur einnig verið umdeilt þótt nú hafi náðst allgóð sátt um túlkun þeirra. Frumubreytingar gefa til kynna að viðkomandi sé í aukinni hættu á að fá sortuæxli. Ef náin ættmenni hafa einnig frumubreytingar eða hafa haft sortuæxli þarf að hafa gott eftirlit með sjúklingnum. Meginástæða þess að blettur er fjarlægður er grunur um frumubreytingar eða sortuæxli.

Fyrir 30 árum voru um 80 af hundraði þeirra sem greindust með ífarandi sortuæxli látnir eftir fimm ár. Í dag er öldin önnur og er nærri lagi að 80 af hundraði lifi að fimm árum liðnum. Ekki er þó öll sagan sögð því fjöldi þeirra sem greinast með sjúkdóminn hefur aukist verulega. Árin 1959-1963 greindust að meðaltali 2,4 á ári með ífarandi sortuæxli en 1998 greindust 30. Dauðsföllum hefur þó ekki fjölgað á sama hátt. Erfitt getur því verið að meta miklvægi þessarar miklu aukningar, meðal annars vegna þess að þykkt æxlanna var ekki metin á sama hátt og nú er gert, en þykktin ákvarðar fyrst og fremst hve alvarlegur sjúkdómurinn er.

Svo virðist sem mun fleiri blettir séu fjarlægðir nú en áður og getur það verið að hluta skýring á auknum fjölda æxlanna en þó engan veginn eina skýringin. Fleiri litlir blettir eru fjarlægðir nú en áður og ef til vill á það sinn þátt í að æxlin ná ekki að verða eins hættuleg. Þetta getur hugsanlega skýrt fremur litla aukningu dauðsfalla af völdum sortuæxla. Staðbundin sortuæxli (melanoma in situ) eru almennt talin læknanleg að fullu séu þau skorin burt með frískri rönd af húð. Þau eru vísbending um aukna hættu á ífarandi sortuæxlum og þarf því að fylgjast vel með þeim sjúklingum.

Árið 1998 greindust 42 með staðbundið sortuæxli hérlendis og kæmi ekki á óvart þótt meiri aukning yrði á næstu árum. Lengi hefur verið deilt um orsakir aukinnar tíðni sortuæxla í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Auk fyrrnefndra þátta eru flestir orðnir sáttir um að sólböð og sólbekkir skýri þessa aukningu að miklu leyti. Ljóst er að þetta gildir fyrst og fremst um þá einstaklinga sem eru ljósir á hörund, ljóshærðir, freknóttir, hafa marga fæðingarbletti, hafa brunnið í sólinni fyrir tvítugt eða eiga ættingja sem hafa sortuæxli. Flestir þessara þátta eru reyndar erfðir en hægt er að takmarka áhættuþætti sem eru á okkar valdi, það er sólböð og notkun sólbekkja. Fyrir fáeinum árum urðu Bandaríkjamenn fyrstir til að takmarka notkun sólbekkja í nokkrum fylkjum. Með reglugerðum var öllum undir lögaldri gert skylt að framvísa skriflegri heimild forráðamanns áður en sólbekkjaböðun var hafin. Þessu er nú framfylgt í tæpum helmingi fylkja Bandaríkjanna. Athyglisvert er að hið sólríka Texasfylki skuli hafa verið fyrst fylkjanna til að takmarka sólbekkjaástundun með fyrrgreindum hætti.

Rannsókn sem framkvæmd var í Bandaríkjunum fyrir þremur árum sýndi að sá atvinnurekstur sem mest jók auglýsingar á gulu síðunum voru sólbaðsstofur. Einnig hefur þarlend könnun leitt í ljós að stór hluti þeirra sem sólbaðstofur sækja eru ljóshærðir eða rauðhærðir og freknóttir, sem sé fólk sem sjaldan tekur lit en brennur þess heldur og er yfirleitt í meiri hættu að fá sortuæxli en þeir sem hafa aðra húðgerð. Ekki er ætlunin að halda því fram að ástandið sé eins hérlendis en þetta vekur samt sem áður upp þá spurningu, hvort við ættum að fara svipað að og hér hefur verið lýst að ofan. Ekki er vitað með vissu hvort þær takmarkanir sem gerðar voru á aðgengi að ljósastofum hafi minnkað aðsóknina en notendum hefur þó að öllum líkindum verið ljósara en áður að hverju þeir gengu. Viðvaranir sem hanga uppi á ljósastofum í dag eru tæpast mjög áhrifaríkar og alls ekki sambærilegar við þær viðvaranir sem nú eru á tóbaki.

Geislar sem notaðir eru í meðferð húðsjúkdóma eru fyrst og fremst UVB-geislar (útfjólublá geislun af B-bandi) sem hafa bylgjulengdina 290-320 nm, en ekki hefur verið sýnt fram á að þeir valdi sortuæxlum þótt ljóst sé að þeir geti stuðlað að myndun flöguþekjukrabbameina hjá viðkvæmum einstaklingum, sé um mikla og langa geislun að ræða. Í fáeinum tilvikum eru UVA-geislar (útfjólublá geislun af A-bandi) (320-400 nm) notaðir en þeir eru einnig í sólbekkjum. Í slíkum tilvikum er magn geislunar skráð nákvæmlega og ekki farið yfir þau geislunarmörk sem talin eru hættulaus. Þeir sem hafa viðkvæma húð og fæðingarbletti fá síður slíkar meðferðir en ef hún er gefin eru þeir undir nánu eftirliti og því líklegt að hægt sé að stöðva meðferðina tímanlega sjáist merki um sólskemmd í húðinni. Þessar ljósameðferðir eru einn besti meðferðarkostur sem völ er á fyrir marga húðsjúkdóma og engan veginn sambærilegar við notkun almennra sólbaðsstofa fyrir fríska einstaklinga, án eftirlits. Hvað varðar sólböð og sólarlandaferðir er sjálfsagt að freista þess að telja sjúklinga okkar á að verjast sólinni, forðast sólböð einkum milli kl. 11 og 14 þegar sólin er hvað hæst á lofti, en nota auk þess sólarvörn sem hefur að minnsta kosti sólarvarnarþátt 15 (SPF 15). Oft er sagt að nota skuli öfluga sólarvörn en sóla sig eins og viðkomandi hafi gleymt að bera á sig sólarvörn. Börn og unglingar eiga alls ekki að brenna í sólinni. Tískan hjá unglingum er því miður ekki hliðholl okkur hvað þetta varðar í dag, en þá er hægt að benda á þau krem sem gera húðina brúna án sólar. Miklar framfarir hafa orðið í framleiðslu þessara krema og eru þau talin með öllu skaðlaus. Einn af þekktustu húðlæknum Bretlands, prófessor John Hawk, sagði nýlega í viðtali við BBC að allur brúnn litur af völdum sólar eða sólbekkja, væri merki um skemmd í húðinni og vildi láta banna ljósabekki á sólbaðsstofum. Í sama streng tók formaður bandaríska húðlæknafélagsins, prófessor Darrel Rigel frá New York, sem heimsótti Ísland í apríl í ár.

Helstu heimildirHall HI, Miller DR, Rogers JD, Bewerse B. Update on the incidence and mortality from melanoma in the United States. J Am Acad Dermatol 1999; 40: 35-42.

Giles GG, Armstrong BK, Burton RC, Staples MP, Thursfield VJ. Has mortality from melanoma stopped rising in Australia? Analysis of trends between 1931 and 1994. BMJ 1996; 312: 1121-5.

MacKie RM, Hole D, Hunter JAA, Rankin R, Evans A, McLaren K, et al. Cutaneous malignant melanoma in Scotland: incidence, survival, and mortality, 1979-94. BMJ 1997; 315: 1117-1121.

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands.

Westerdahl J, Olsson H, Masback A, Ingvar C, Jonsson N, Brandt L, et al. Use of sunbeds or sunlamps and malignant melanoma in southern Sweden. Am J Epidemiol 1994; 140: 691-8.

Karlsson P, Boeryd B, Sander B, Westermark P, Rosdahl I. Increasing incidence of cutaneous malignant melanoma in children and adolescents 12-19 years of age in Sweden 1973-92. Acta Derm Venereol 1998; 78: 289-92.

Lindelof B, Hedblad MA, Sigurgeirsson B. Melanocytic naevus or malignant melanoma? A large-scale epidemiological study of diagnostic accuracy. Acta Derm Venereol 1998; 78: 284-8.

Swerdlow AJ, Weinstock MA. Do tanning lamps cause melanoma? An epidemiologic assessment. J Am Acad Dermatol 1998; 38 : 89-98.

Sortuæxlum á Íslandi hefur fjölgað verulega síðustu áratugi

Sortuæxlum á Íslandi hefur fjölgað verulega síðustu áratugi, sérstaklega hjá konum. Þá fara konur oftar í sólbað og brenna oftar en karlar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri og viðamikilli könnun sem ber heitið

Fram kemur í könnuninni að sortuæxli séu algeng hjá ungum konum og eldri körlum. Þá segir að miðað við þekkingu á eðli húðkrabbameina bendi allt til að Íslendingar verði að jafnaði fyrir of mikilli geislun frá sól og ljósabekkjum.

Sveinbjörn Kristjánsson, verkefnisstjóri skólafræðslu hjá Lýðheilsustöð, bendir á að geislun sólar og frá ljósabekkjum sé vel þekktur orsakavaldur húðkrabbameina. Hann segir að ýmsar leiðir séu færar til að draga út geislun á húð og þá sé mikilvægt að börn og foreldrar séu frædd um áhrif of mikillar geislunar.

Könnunin Heilsa og líðan Íslendinga er ein umfangsmesta póstkönnun sem gerð hefur verið á Íslandi en henni var stýrt frá Lýðheilsustöð í samvinnu við ýmsa sérfræðinga frá Kennaraháskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri, Landlæknisembættinu, Vinnueftirlitinu og Krabbameinsfélagi Íslands. Auk spurninga um sólböð og sólbruna þá var einnig spurt um andlega og líkamlega heilsu, lyfjanotkun, svefn, reykingar, áfengisneyslu, atvinnuumhverfi, tannheilsu og næringu svo nokkur dæmi séu tekin.

Markmið rannsóknarinnar er að afla upplýsinga um heilsu, líðan, lífsgæði og sjúkdóma fólks á Íslandi, svo og um helstu áhrifaþætti heilbrigðis, þ.e. lífshætti aðstæður og lífsskilyrði. Áhersla var lögð á að mæla þætti sem töluleg gögn íslenska heilbrigðiskerfisins og Hagstofu Íslands ná ekki yfir. Rannsókninni er ætlað að vera grunnur að reglubundnum mælingum á heilsu, liðan og lífsgæðum fólks á Íslandi. Gögn rannsóknarinnar verða nýtt bæði af háskólasamfélaginu og af opinberum aðilum m.a. til stefnumótunar til að skapa landsmönnum tækifæri til heilbrigðs lífs.

Leiðbeiningar til Flugmanna

Leiðbeiningar til flugmanna

Þekktir eru ýmsir áhættuþættir að því er varða myndun sortuæxla. Þar má nefna sólbruna, sérstaklega í æsku, óhóflega sólun, óreglulega fæðingarbletti, náin ættingi sem hefur greinst með sortuæxli marga fæðingarbletti, ljósabekkjanotkun og ljósan húðlit.

Að auaki hafa rannsóknir hafa sýnt að aukin áhætta er á myndun sortuæxla hjá flugmönnum og flugliðum. Ekki er að full ljóst af hverju þessi áhætta stafar. Þeir sem standa að þessum rannsóknum telja að hugsanlegt er að þessi áhætta tengist geimgeislum. Þessi til stuðnings er sú staðreynd að áhættan virðist aukast í réttu hlutfalli við þá geislun sem flugmaðurinn hefur orðið fyrir.

Húðlæknastöðin hefur tekið að sér að skoða flugmenn reglulega m.t.t. einkenna sem geta bent til illkynja meina eða forstigsbreytinga þeirra. Þessar skoðanir eru mjög mikilvægar svo hægt sé að greina þessi mein á frumstigi. Ekki síður er mikilvægt að flugmenn hafi eftirfarandi í huga:

1. Kynna sér staðreyndir um sortuæxli og útlit  þeirra þannig að þeir geti greint hættumerkin. Þess vegna er nauðsynlegt að kynna sér eftirfarandi efni.
2. Skoða húðina mánaðarlega m.t.t. breytinga. Hvernig slík skoðun fer fram er lýst hér að ofan
3. Nota sólvörn 25 eða meira í sól
4. Mæta í skoðun á vegum FíA og Húðlæknastöðvarinnar
5. Ef blettur er að breyta sér. Hafa samband við Húðlæknastöðina í síma 5204444, eða með tölvupósti. Gefa upp að þú sért flugmaður og að þú hafir áhyggjur af blett sem er að breyta sér.

Mikilvægt er að átta sig á að blettir sem eru í lagi við skoðun geta breytt sér á 6 mánuðum eða jafnvel styttri tíma. Þess vegna er mánaðarleg sjálfskoðun mjög mikilvæg.

Kær kveðja

Húðlæknastöðin

www.hudlaeknastodin.is

Sortuæxli

Sortuæxli eru hættulegasta tegund húðkrabbameina og geta dtegið fók til dauða. Árlega deyja um 5 einstaklingar af sortuæxlum hérlendis. Sortuæslum hefur fjölgað mjög mikið hérlendis og eru nú algengasta krabbameinið hjá ungum konum.


Smelltu hér til að lesa meira.......

Sólbrún fermingarbörn

Útivera og hreyfing er nauðsynleg fyrir flesta og er auðvitað af hinu góða. Fólk á hins vegar ekki að liggja í sólböðum til að verða brúnt. Sérstaklega eiga börn og unglingar ekki að stunda sólböð og alls ekki að brenna í sólinni. Sólbruni þýðir að húðfrumurnar hafa skemmst og við sólbruna er stundum lagður grunnur að húðkrabbameini sem kannski kemur ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár eða áratugi. Sérstaklega á að vara sig á sólinni þegar hún er hæst á lofti um hádegið en þá eru geislarnir sterkastir.

Steingrímur Davíðsson húðlæknir hefur ritað grein um skuggahliðar brúnnar húðar.


Smelltu hér til að lesa greinina...........

Hættan er ljós

Á hverju ári standa Geislavarnir ríkisins, Krabbameinsfélagið, Landlæknisembættið og Félag íslenskra húðlækna fyrir fræðslu til að minna á skaðsemi ljósabekkja, en hver eru hin skaðlegu áhrif ljósabekkjanna?

Árið 1992 gaf Alþjóða krabbameinsrannsóknarstofnunin út yfirlýsingu þar sem fram kom að nægar vísindalegar upplýsingar lægju fyrir til að fullyrða að útfjólubláir geislar gætu valdið sortuæxlum og öðrum húðkrabbameinum. Útfjólubláa geisla er að finna bæði í geislum sólarinnar og ljósabekkja.

Húðlæknarnir Jón Hjaltalín Ólafsson og Bárður Sigurgeirsson hafa rituð grein í Morgunblaðið um þessi mál.Smelltu hér til að lesa greinina.....
Eldri færslur...
Húðlæknastöðin - Smáratorgi 1, 201 Kópvogur - s. 5204444 - fax. 5204400 - Opnunartími 8-18 - Skiptiborðið opið 9-12 og 13-16 - Sendu tölvupóst