Þar sem að laserstarfsemin er svo umfangsmikil ákváðum við að eigna henni sérstaka heimasíðu. Þú getur skoðað lasersíðuna okkar með því að smella á merkið hér að ofan.

Húðlæknastöðin var stofnuð í mars 1998 og hefur verið staðsett á Smáratorgi í Kópavogi frá upphafi. Lasermeðferð við ýmsum húðsjúkdómum hefur allan tímann verið hluti starfseminnar. Stöðugt hefur bæst við tækjakostinn sem nú er mjög fjölbreyttur. Með lasermeðferð hafa þróast nýjar aðferðir við meðferð húðsjúkdóma, æðaflækja í húð, örmyndunar og ýmissa annara breytinga í húð. Stöðug þróun er í lasermeðferð húðarinnar og fylgjast læknar Húðlæknastöðvarinnar vel með henni.

Meðal þess sem hægt er að meðhöndla með lasertækjum húðlæknastöðvarinnar er valbrá, rósroði , æðaslit í andliti (telangiectasiur), æðaslit á fótlimum, óæskilegur hárvöxtur og húðflúr (Tattoo). Einnig er hægt að að meðhöndla ofholdgun í húð (Keloid) og örmyndun í andliti eftir slæmar bólur (acneör). Afleiðingar sólskemmda í húð svo sem brúnar litabreytingar (lentigo), hrukkumyndun, og myndun forstigsbreytinga er einnig hægt að hafa áhrif á með lasermeðferð.

Húðæxli bæði illkynja og góðkynja er hægt að meðhöndla með lasertækjum. Oftast er þá notaður koltvísýringslaser (CO2 laser). Mikilvægt er við meðhöndlun húðæxla með laser að greining þeirra liggi fyrir.

Bólur í húð (Acne vulgaris) er hægt að meðhöndla með laser. Sú meðferð er hugsuð fyrir þá einstaklinga sem ekki þola eða vilja lyfjameðferð eða ef hefðbundin bólumeðferð með útvortislyfjum eða inntökulyfjum hefur ekki dugað.

Til viðbótar eru erfið tilfelli psoriasis, staðbundins exems og blettaskalli meðhöndlaður með tæki sem kallast V-Trac. Þetta tæki sendi frá sér UVB geisla á sérstöku formi sem hefur áhrif á ónæmiskerfi húðarinnar staðbundið. Með því að nota V-Trac tækið er hægt að meðhöndla nákvæmlega húðbreytingarnar án þess að hafa nein áhrif á heilbrigða húð í kring um meðferðarsvæðið.

Læknar Húðlæknastöðvarinnar ásamt öðru heilbrigðisstarfsfólki sjá um meðferðina. Þess er gætt að einungis þeir sem hafa langa þjálfun í meðferð þessara tækja noti þau enda mörg öflug.

Laser tækin sem Húðlæknastöðin hefur yfir að ráða eru tvö Starlux kerfi frá Palomar, tvö Co2 laser tæki, eitt V Trac- tæki og einn sérhæfðan hárlaser. Meðferð með Vasculight tæki sem var notað í upphafi hefur nú verið hætt.

Stralux kerfið er mjög fjölhæft kerfi sem er byggt upp af megin einingu sem við eru tengdir “hausar”. Þessir hausar gefa frá sér mismunandi bylgjulengdir og er skipt um haus eftir því hvað skal meðhöndla. Þannig er sérstakur haus fyrir æðar á fótlimum, annar fyrir rósroða og æðar í andliti, 3 mismunandi hausar fyrir háreyðingu, einn haus fyrir meðferð öra og hrukkumyndunar (Fractional), sérstakur haus til að meðhöndla svæðið undir húðinni til að þétta húðina og slétta hana (Innrautt ljós) og svo sérstakur haus til meðhöndlunar á bólum (Acne vulgaris)

Almennt má segja um lasermeðferð að oftast þarf fleiri en eina meðferð til að ná fullnægjandi árangri, stundum fylgir vægur tímabundinn sársauki meðferðinni og því ljósari sem húðin er því betur gengur að meðhöndla. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem eru í meðferð með þessum tækjum varist að verða mjög sólbrúnt sérstaklega vikurnar fyrir meðferðirnar.
Húðlæknastöðin - Smáratorgi 1, 201 Kópvogur - s. 5204444 - fax. 5204400 - Opnunartími 8-18 - Skiptiborðið opið 9-12 og 13-16 - Sendu tölvupóst