Ofnæmisexem og ofnæmispróf

Fjölmörg efni geta valdið exemi. Þegar líkaminn myndar ofnæmi gegn efnum fylgir bólga, sprungur og kláði í kjölfarið. Dæmi um slík efni eru nikkel, gúmmí og ilmefni. Ofnæmi í húð festist í minni ónæmiskerfis húðarinnar. þannig er til dæmis húðofnæmi fyrir málminum nikkeli yfirleitt til staðar alla ævi. Ofnæmisminnið er staðsett í hvítum blóðkornum en þau eru á stöðugri ferð um allan líkamann. Ofnæmisexem getur einnig myndast gegn fiski, kjöti, ávöxtum og grænmeti. Ofnæmi fyrir lífrænum prótínum, áður nefnt eggjahvítuefni, lýsir sér oft þannig að viðkomandi fær nær samstundis útbrot og kláða af snertingu við skaðvaldinn. Erfitt er að greina prótínofnæmi með vissu, jafnvel með ofnæmisprófum. Yfirleitt átta sjúklingar sig sjálfir á þessu vegna hins augljósa sambands, þ.e. hins skamma tíma milli snertingar og útbrota.

Helstu orsakir ofnæmisexema:

Algengustu efni sem valda snertiofnæmi eru nikkel, ilmefni, ýmis rotvarnarefni, gúmmí, límefni og króm. Nikkel er málmur sem er að finna víða í umhverfinu til dæmis í óekta skartgripum, buxnahnöppum, krækjum, mynt og lyklum. Talið er að um 15 af hundraði kvenna á Norðurlöndum hafi ofnæmi fyrir nikkeli en um 95 af hundraði þeirra hafa göt í eyrum og er því afar óráðlegt að gera slík göt. Ilmefni eru í snyrti-og hreinlætisvörum en leynast víða annarstaðar.

Ofnæmisrannsóknir

Ofnæmi fyrir efnum eins og nikkeli verða þegar ónæmisfrumurnar mynda ofnæmi og muna það árum saman og jafnvel alla ævi einstaklingsins. Til að komast að því hvort um ofnæmi sé að ræða er framkvæmt svokallað lappapróf (epicutan test). Efnin sem prófa á eru þynnt í vaselíni eða vatni svo að húðin ertist ekki og síðan sett á litlar málmskálar semeru á límstrimlum. Límstrimlarnir eru svo límdir á bakið og látnir liggja að húðinni í 2 sólarhringa en sí
ðan fjarlægðir. Sólarhring síðar er lesið af bakinu.

Ofnæmissvörun gefur sérstaka svörun á bakinu. Oft hleypur húðin upp þar sem efnið lá við húðina. Roði myndast og kláði fylgir. Aflesturinn krefst sérþekkingar og er ekki framkvæmdur nema af sérfræðingi því iðulega koma fram rauðir flekkir sem ekki eru afleiðing ofnæmis. Með þessari aðferð er hægt að athuga 20 - 50 efni og efnablöndur í einu. Oftast er byrjað á að athuga ofnæmi fyrir algengustu ofnæmisvöldum þ.e. nikkeli, ilmefnum, gúmmíefnum, trjákvoðu (kolofonium), ýmsum rotvarnarefnum ofl. Stundum er gerð nánari rannsókn í framhaldi þessa þar sem prófuð eru efni sem viðkomandi einstaklingur kemst í snertingu við í sínu starfi . Dæmi um slíka efnaflokka eru hárgreiðsluefni, korntegundir, plastefni og snyrtivörur. Margir slíkir sérhæfðir efnaflokkar eru til og fer þeim fjölgandi.

Til að kanna ofnæmi fyrir mat, frjókornum, rykmaurum og dýrahárum er gert svokallað rispupróf. Sjaldan er þörf á slíku prófi hjá einstaklingum með handaexem. Rispupróf er framkvæmt þannig að dropi af vökva sem inniheldur viðkomandi efni er látinn á húð. Síðan er stungið grunnt í húðina gegnum dropann með oddhvassri nál þannig að lítið magn dropans fari inn í húðina. Lesið er úr slíku prófi um hálfri klukkustund eftir að það er framkvæmt.
Húðlæknastöðin - Smáratorgi 1, 201 Kópvogur - s. 5204444 - fax. 5204400 - Opnunartími 8-18 - Skiptiborðið opið 9-12 og 13-16 - Sendu tölvupóst